Skólareglur Kirkjubæjarskóla

 

Skólareglur Kirkjubæjarskóla felast fyrst og fremst í almennum umgengnisreglum. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum starfsfólks í öllu starfi á vegum skólans. Samskipti nemenda og starfsfólks skólans þurfa að einkennast af prúðmennsku, kurteisi og gagnkvæmri virðingu. Skólinn leggur áherslu á að skapa hlýlegt umhverfi og því mikilvægt að nemendur og starfsmenn skólans gangi vel um skólann. Hlýlegt umhverfi er einn þeirra þátta sem hafa jákvæð áhrif á líðan nemenda.

·       Allir mæti stundvíslega

·       Allir virði vinnufrið og gæti þess að trufla ekki aðra

·       Allir sinni námi sínu og öðrum störfum af kostgæfni

·       Allir sýni kurteisi og tillitsemi í samskiptum

·       Allir hafi ávallt nauðsynleg gögn tiltæk

·       Allir fari vel með eigur sínar og annarra

·       Allir fari úr yfirhöfnum, húfum og útiskóm í fatahengi

·       Allir gæti hófs í gönguhraða innanhúss

·       Hver nemandi ber ábyrgð á þeim verðmætum sem hann kemur með í skólann

·       Hver nemandi er ábyrgur fyrir því tjóni sem hann kann að valda á eigum annarra nemenda, starfsfólks eða skólans

 

Óheimilt er:

·       Að hafa sælgæti um hönd að öllu jöfnu

·       Að hafa kveikt á farsíma í kennslustund og matsal

·       Að hjóla á skólalóðinni á skólatíma

·       Að vera með hluti í skólanum sem valdið geta truflun, skaða eða skemmdum

Notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er algjörlega bönnuð í öllu starfi á vegum skólans.

 

Kennurum er heimilt að setja sérstakar reglur sem gilda í kennslustofum og á vinnusvæðum nemenda og í ferðum á vegum skólans.

 

Sjá nánar reglugerð nr. 1041/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum