3. - 4. bekkur

 

Vordagar hjá 3. – 4. bekk 2019 

 

 

Nú fer að styttast í sumarfríið hjá okkur og hér fylgir yfirlit yfir helstu atriði síðustu daganna:

Katrín skólastjóri mun leggja fyrir lesfimiprófin á næstu dögum en ég legg fyrir Orðleysu verkefnin, útkoman verður á lesferli sem mun fylgja einkunnaspjaldi á skólaslitum.

 

Þriðjud. 14. maí – skriftarpróf

Miðvikud. 15. maí – Orðleysu verkefni

Fimmtud. 16. maí – Eurovision/sumarball á skólatíma, haldið af unglingastigi í matsal

Föstud. 17. maí – stærðfræðikönnun

Mánud. 20. maí eða Miðvikud. 22. maí – Vorferð ( nánari upplýsingar koma síðar)

Mánud. 27. maí – Gönguferð í nágrenni skólans fyrir hádegi með nesti

Þriðjud. 28. maí – Vorhátíð/hjóladagur, krakkarnir mega endilega koma með hjólin í skólann, farið verður í leiki og í hádeginu eru grillaðar pylsur. Líkt og fyrri ár eru foreldrar hjartanlega velkomnir í pylsur

Miðvikud. 29. maí – Skólaslit

 

 

Endilega verið í sambandi ef einhverjar spurningar vakna J

 

Linda Agnars

 


 

28. mars 2019

Ég vil minna á Upplestrarhátíð KBS í kvöld kl. 20 í matsal skólans. Þar lesa nemendur 5. - 7. bekkjar upp sögubrot og ljóð og nemendur 7. bekkjar keppa sín á milli um að verða fulltrúar KBS í Stóru upplestrarhátíðinni sem fram fer á Hvolsvelli þann 8. apríl n.k. 

Nemendur fara með í dag heim í skilaboðaskjóðunum upplýsingablað um þriðjudaginn 2. apríl en þá eru allir hvattir til að klæðast bláum fötum til að sýna einhverfum stuðning og samstöðu og vil ég hvetja foreldra til að senda nemendur í skólann þann dag í bláum fötum.

Nemendur 3. - 4. bekkjar voru mjög duglegir að lesa bækur og skrá þær í lestrarátaki Ævars vísindamanns sem lauk núna í mars og var einn nemandi svo dreginn úr pottinum í hverjum skóla og vorum við svo heppin að einn nemandi í 3. - 4. bekk var dreginn út og fær að launum áritaða bók frá Ævari vísindamanni.

Næstu viku munum við nota vel til að klára þau verkefni sem við ætlum að ljúka fyrir páskafríið sem hefst 11. apríl þar sem sá dagur er starfsdagur kennara. Kennsla hefst svo á ný eftir páskafrí á þriðjudeginum 23. apríl.

Stefnt er á bekkjarkvöld í byrjun maí.

 

kv,Linda Agnars

 


 

 

 

18. mars

Síðasta föstudag var heldur fámennt hjá okkur í 3. og 4. bekk þar sem aðeins voru 2 nemendur viðstaddir þann daginn. Dömurnar brösuðu ýmislegt skemmtilegt þó þær væru bara tvær og skelltu m.a. upp skemmtilegu leikriti sem við tókum upp á spjaldtölvu og svo var nemendum 1. og 2. bekkjar boðið að sjá leiksýninguna í lok síðasta tíma. Vakti leikritið mikla lukku og kátínu gesta enda gamanleikrit með vott af farsa af bestu gerð :) Hér að ofan má sjá mynd af leikhúsgestunum.

 

Í þessari viku höldum við áfram að vinna í hringekju og eru nemendur m.a. að lesa, vinna í vinnubókum, leysa stærðfræðiþrautir, vinna í íslenskum þjóðháttum, vinna í náttúrufræðiverkefni sem fjallar um Skaftárhrepp og Gull í grennd, vinna orðaforðaverkefni í ensku, vinna með íslenska málshætti og ritunarverkefni svo eitthvað sé nefnt. Krakkarnir hafa allir verið mjög duglegir og sýnir það sig að það hentar þessum hópi vel að vinna í styttri lotum og vinna fjölbreytt verkefni.

Heimavinna þessa viku er að lesa heima í 10 mínútur á dag og á miðvikudag taka þau heimadæmi til að vinna heima.

 

Bestu kveðjur, Linda Agnars

 

5. mars

Það er mikilvægt að nemendur lesi heima allavega fjórum sinnum í viku og þá í helst ekki minna en 10 mínútur í senn, það hefur verið að brenna við síðustu daga að lesa heima hjá sumum nemendum. 

Við höfum verið að njóta veðurblíðunnar á meðan er og höfum farið í gönguferð í náttúrufræði og á næstu dögum ætla krakkarnir að taka skurk í útistærðfræðinni. 

Öskudagur er á morgun og mega krakkarnir koma í búningi í skólann og fara þau svo í tveimur síðustu tímunum á morgun út að syngja fyrir góðgæti. Upplýsingablað um Öskudagsball fór heim með krökkunum í gær.

 

 


 

Lokaæfingar og undirbúningur fyrir árshátíðina gengur vel. Nemendur mæta kl. 13:00 á fimmtudaginn, skólabílar keyra. Foreldrar þurfa að láta skólabílstjóra vita ef þeir ætla ekki að nýta sér ferðirnar. Árshátíðin hefst svo kl. 14:00 og í ár tökum við fyrir Emil í Kattholti eftir Astrid Lindgren. Á föstudaginn er engin kennsla vegna skipulagsdags kennara.

Á morgun fara nemendur með heim auglýsingu um árshátíð og lesferilsblöðin sín.

 

Related image


 

11. febrúar

Lífshlaupið gengur vel og krakkarnir duglegir að mæta á íþróttaæfingar og leika sér úti í snjónum. Kirkjubæjarskóli keppir í flokki skóla með 3 - 89 nemendur og erum við eins og staðan í dag í 4. sæti af 28 skráðum skólum. Staðan er þó fljót að breytast dag frá degi og mikilvægt að allir leggist á eitt og séu duglegir að hreyfa sig, allavega í 60 mínútur á dag.

Hér er hægt að fylgjast með stöðunni: https://www.lifshlaupid.is/stadan/grunnskolakeppni/

Krakkarnir eru flestir mjög duglegir að lesa, bæði heima og í skólanum, en mikilvægt er að lesa heima í allavega 10 mínútur 4 sinnum í viku. Í Janúar lásu krakkarnir samtals 3227 bls. og 53 bækur. Þau hafa þá lesið frá skólabyrjun samtals 10.731 bls. og 314 bækur sem verður að teljast góður árangur.

Á miðvikudag fara þau heim með stærðfræði-heimadæmi.

 

Bestu kveðjur, 

Linda Agnars


 

6. febrúar

Lífshlaupið 2019

Sælir foreldrar!

Í skilaboðaskjóðum nemenda er að finna skráningarblað vegna þátttöku í Lífshlaupinu 2019. Allur Kirkjubæjarskóli keppir sem eitt lið og þurfið þið að aðstoða ykkar barn/börn við að fylla út í blaðið og passa að það rati svo aftur í skilaboðaskjóðuna þar sem ég tek svo skráningarblöðin og færi inn. Krakkarnir þurfa að hreyfa sig í að minnsta kosti 60 mínútur í dag og er öll hreyfing talin með, t.d. ganga, hlaup, fótbolti, útileikir og íþróttaæfingar. Endilega hafið samband við mig ef þið hafið einhverjar spurningar en nánari upplýsingar um Lífshlaupið getið þið fundið hér:

https://www.lifshlaupid.is/

 


 

4. febrúar 2019

Á föstudaginn síðasta héldum við Dag stærðfræðinnar hátíðlegan með því að öllum nemendum skólans var skipt í hópa, þvert á aldur, og fóru hóparnir á fjórar stöðvar þar sem unnið var með stærðfræði á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt.

 Þessa vikuna, 4. – 8. febrúar, er tannverndarvika og af því tilefni horfðum við í 3. og 4. bekk saman á myndbönd tengdum tannheilsu og umhirðun tanna, ræddum tannburstun og ýmislegt tönnum tengt.

 Lífshlaupið hefst á miðvikudaginn 6. febrúar og stendur til 20. febrúar. Nemendur fá skráningarblöð heim á morgun.

 Við erum byrjuð að æfa fyrir árshátíðina og eru allir nemendur komnir með hlutverk og handrit og erum við bæði að æfa línurnar og söngvana. Gott að minna þau á að æfa sig einnig heima þegar tækifæri gefast til. Árshátíðin verður svo haldin 28. febrúar og daginn eftir, föstudaginn 1. mars, eru nemendur heima þar sem engin kennsla verður vegna skipulagsdags kennara.

 Nemendur fóru fyrir áramót heim með rauðar plastmöppur með verkefnum í sem tengjast því að spyrja ömmu og afa um íslenska þjóðhætti. Ég er búin að fá tilbaka 3 möppur af átta þannig að það væri gott ef þið gætuð aðstoðað ykkar barn með því að svipast um eftir þessari möppu heima og stinga henni í skólatöskurnar.

Endilega hafið samband ef eitthvað brennur á ykkur og ég minni á viðtalstímann minn kl. 11:05 – 11:45 á fimmtudögum.

Bestu kveðjur,

 

Linda Agnars

 

 


 

22. janúar 2019

Sælir foreldrar.

 

Heimanám þessa vikuna er að lesa heima daglega í 10 mínútur.

Á morgun fara nemendur í lestrarskimun og verða niðurstöður skráðar í Lesferilinn sem ég mun svo senda ykkur afrit af.

Á árshátíðinni í febrúar ætla nemendur að sýna leikrit um Emil í Kattholti og vorum við m.a. að klára að horfa á mynd um Emil í dag og krakkarnir eru byrjaðir að æfa sönglögin í tónmennt hjá Teresu. Árshátíðin verður haldin þann 28. febrúar n.k.

Í stærðfræðinni erum við að klára klukkuverkefnin okkar og förum svo í rúmfræði og mælingar.

Á fimmtudag verður þorramatur á boðstólum í hádeginu og ætlum við að föndra af því tilefni flotta víkingahatta. Á föstudeginum byrjum við svo þemavinnu með þjóðhætti og gamla Ísland sem tekur yfir samfélags- og náttúrufræðitímana næstu 2-3 vikur.

Í dag og í gær hafa nemendur verið duglegir að lesa og hafa einnig unnið myndasöguverkefni um Emil, unnið ljóðaverkefni, unnið klukkuverkefnahefti og skrifað upp Þorraþrælinn í sóknarskrift sem var svo sunginn hástöfum í tilefni komu Þorra.

Ég er að vinna í því að klára að fara yfir ýmsar vinnubækur sem svo verða sendar stimplaðar heim, endilega kíkið stundum í skólatöskuna, stundum hafa hlutir og/eða bækur átt það til að daga þar uppi. Ef nemendur og foreldrar vilja ekki eiga þessar bækur er auðvelt að endurvinna þær með pappanum :)

 

Endilega hafið samband ef einhverjar spurningar vakna,

 

Bestu kveðjur, Linda Agnars

 


 

15. janúar 2019

Sælir foreldrar.

Heimavinnuáætlun þessa vikuna er að lesa heima í fjóra daga vikunnar í 10 mínútur í senn.

Í samfélagsfræði/náttúrufræði erum við byrjuð á þemaverkefni um íslensku þjóðhættina og erum m.a. búin að ræða Þorrann, þorramat og ýmislegt fleira því tengdu, þið megið endilega spyrja þau heima hverjir Þorri og Góa séu :) Þetta þemaverkefni o.fl. verður kynnt á foreldrakvöldi sem haldið verður líklega í febrúar.

Í stærðfræðinni erum við að vinna með klukkuna og einhverjir nemendur fara heim í dag með klukkumiða til að hengja í kringum klukkuna heima til að auðvelda það nám. 

Í íslensku erum við að lesa og æfa okkur í lesskilningi og stafsetningu. Gerðum orðarenninga með t.d. þorramat og förum í sóknarskrift í vikunni. Einnig eru nemendur að vinna í að semja bæði vetrarsögur og -ljóð. PALS þjálfun hefjum við svo að nýju í næstu viku. Hið árlega lestrarátak Ævars vísindamanns stendur nú yfir og þegar nemendur hafa lesið þrjár bækur fylla þeir út miða sem ég kvitta á og þeir setja í kassa á bókasafninu. Foreldrum er einnig gefinn kostur á að taka þátt og má lesa allt um átakið á þessari vefsíðu: https://www.visindamadur.com/copy-of-lestraratakid-2017-2018

Í ensku erum við að vinna með orðaforðaæfingar og munnlega tjáningu.

Í upplýsingamennt erum við að klára Fingrafimi æfingar, Word skjalagerð og ætlum svo að fara að æfa okkur í að útbúa glærur og svo förum við í grunnforritun þar sem nemendur fá m.a. að útbúa eigin tölvuleik.

Endilega hafið samband ef einhverjar spurningar vakna, minni á viðtalstímann minn á fimmtudögum kl. 11:05.

 

Bestu kveðjur, Linda Agnars          

 

 

 

                                 

 

Sælir foreldrar.

Takk fyrir komuna þið ykkar sem ég hitti í foreldraviðtölum í gær. Ég vil ítreka það sem við ræddum að nemendur viðhaldi lestrinum í jólafríinu, því að lesfimipróf verður lagt fyrir strax í janúar. Einhver ykkar eiga líklega lesfimiblaðið sem þið fenguð síðast en ef einhverjir vilja fá það sent aftur látið þið mig bara vita, á lesfimiblaðinu kemur fram lesferill nemandans ásamt viðmiðum að vori 2019.

 Á morgun, fimmtudag, eru litlu jólin og þá mæta nemendur í skólann kl. 11:45 og lýkur gleðinni svo kl. 14:30. Nemendur mega koma með smá nammi og gos eða safa. Einnig er gott að koma með lítinn poka fyrir jólakortin og pakkann. Við ætlum að hafa pakkaleik eins og síðustu ár og þá koma nemendur með lítinn pakka, má kosta á milli 500 – 1000 kr.

Nemendur þurfa ekki að koma með kerti, ég sé um það. Litlu jólin verða með hefðbundnu sniði, við byrjum á að dansa saman í kringum jólatréð og svo borðum við hátíðarmat í matsalnum. Aldrei að vita svo nema rauðklæddir félagar kíki í heimsókn. Eftir það förum við niður í stofu og eigum þar saman jólastund, dreifum jólakortunum okkar og hlustum á jólasögu. Minni á að börnin mæti prúðbúin á litlu jólin.

Að lokum vil ég þakka ykkur kærlega fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða og óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.

 Bestu kveðjur, Linda Agnars


 

14. desember

Sælir foreldrar.

Krakkarnir eru búnir að vera duglegir í dag að skreyta stofuna og hana prýða nú fjölmargar jólaseríur og myndar jólatré.

Á mánudaginn fara nemendur heim með undirbúningsblöð fyrir foreldraviðtölin sem verða á þriðjudag. Endilega látið mig vita ef þið komist ekki á þriðjudaginn og þá finnum við bara annan tíma.

Ég minni á jólaleiksýninguna á mánudag og svo tónleika Tónlistarskólans á miðvikudag.

Á fimmtudaginn 20. des eru svo litlu jólin og hefjast þau kl. 11:45 og lýkur um kl. 14:15. Við í 3. - 4. bekk ætlum að hafa smá jólapakkaleik, allir koma með einn pakka sem má kosta á bilinu 500 - 1000 kr og koma með hann í skólann á mánudeginum. Einnig mega þau koma með smá nammi og gos eða safa á litlu jólin.

Endilega verið í bandi ef þið hafið einhverjar spurningar,

kv,Linda Agnars


 

23. nóvember -

Sælir foreldrar.

Á mánudaginn tóku nemendur margföldunarpróf sem gekk mjög vel og nemendur 3. bekkjar tóku enskukönnun sem einnig gekk vel.

Við unnum verkefni sem ég kalla Gull í grennd en í þeim verkefnum kynnum við okkur náttúru og örnefni hér í kringum okkur og í þetta sinn var umfjöllunarefnið Systrastapi. Í þemaviku fyrir Uppskeruhátíð síðasta árs var unnið verk sem er Systrastapi skorinn út í tré og myndir af öllum nemendum skólans límdar á. Þetta verk hangir uppi í matsal og settum við svo okkar verkefni allt um kring. Við unnum með Systrastapa sjálfan á marga vegu myndrænt og einnig sögurnar af leiðum systranna tveggja þar uppi. Myndir af verkefninu má sjá hér fyrir neðan.

Á mánudag verður stutt leiksýning í boði fyrir nemendur 1. – 4. bekkjar og að því loknu hefst þemavinna fyrir opið hús þann 1. des. n.k. Nemendum er skipt í hópa þvert á bekki og eru fjórar vinnustöðvar og allir nemendur fara tvisvar sinnum á hverja stöð. Unnið verður í þessu verkefni í ca. 4 kennslustundum á dag. Við í 3. og 4. bekk erum búin að skoða m.a. hvað gerðist fréttnæmt í maí og júní 1918 og erum byrjuð á verkefni sem tengist bókinni Komdu og skoðaðu íslenska þjóðhætti. Við erum t.d. búin að skrifa niður heiti gömlu mánaðanna og það sem okkur dettur í hug þegar við hugsum um orðið þjóðhættir. Þessi verkefni eru í rauðri plastmöppu sem krakkarnir tóku með sér heim í dag þar sem þau ætla að vinna stutt verkefni um helgina sem snýst um að spyrja mömmu, pabba, ömmu og/eða afa einnar spurningar.

Á föstudaginn skreppum við svo yfir í Félagsheimilið þar sem tendruð verða ljós á jólatrénu þar fyrir utan.

Ég minni á heimalestur og hraðlestur í það minnsta 4 sinnum í viku.

 

Bestu kveðjur, Linda Agnars

 

        


 

9. nóvember

Krakkarnir hafa verið mjög duglegir að vinna alla vikuna og fengu þau því smá verðlaunatíma þar sem bæði var dútlað við föndur og spilaðir leikir í spjaldtölvunum í síðasta tímanum í dag. Þau hafa flest verið mjög samviskusöm að lesa heima, í september lásu þau öll samtals 1321 blaðsíður og 61 bók en í október hafa þau lesið yfir 2000 blaðsíður og yfir 100 bækur. Við höfum verið að vinna einnig í ritun og sömdu þau t.d. draugasögur sem við klipptum út og hengdum í gluggana.

Í stærðfræðinni erum við að vinna með margföldunartöflurnar og í þessari viku kláruðum við töflur 5 til 12 og í næstu viku verður könnun í margföldun. Eftir það taka við mælingar og rúmfræði.       

 Á næstu tveimur vikum læðist smá þemavinna inn í hefðbundna stundaskrá þar sem við erum að undirbúa opna húsið okkar 1. des. Við ætlum að vinna með t.d. Gull í grennd verkefnið okkar og Systrastapa, ýmislegt sem gerðist í maí og júní 1918 og fána og skjaldarmerki Íslands.

Í gær var Baráttudagur gegn einelti og í næstu viku fjöllum við m.a. um einelti og ýmislegt fleira tengt efni sem kallast Litli Kompás. Þar er fjallað um Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og ýmis réttindi barna. Þetta verður bæði í ART tímum sem og samfélagsfræði tímum.

3. bekkur tekur stutta enskukönnun í næstu viku, meira um það eftir helgi. Minni á heimalestur 4 sinnum í viku og hraðlesturinn einnig 4 sinnum í viku.

Endilega hafið samband ef einhverjar spurningar vakna,

kv, Linda Agnars 

 

Hraðlestrarnámskeið, diskóball og spilakvöld.

Í gær fóru nemendur 3. og 4. bekkjar heim með hraðlestrarheftin sín og ég sé að einhverjir lásu í gær og merktu við, þeir sem ekki hafa enn lesið ættu endilega að drífa í því.

Hraðlesturinn stendur yfir fram að jólafríi og eiga nemendur að lesa 4 sinnum í viku heima, þau ráða hvaða 4 daga. Þessi hraðlestur kemur til auka við heimalesturinn sem er áfram 10 mínútur á dag, mánudag til fimmtudags.

Í skólanum lesa þau svo hjá mér í skólaheftinu sínu.

Fyrirkomulag: Hver texti er lesinn tvo daga í röð. Lesið er í 1 mínútu og merkt við í textanum hvert nemandinn las (1). Aftur er byrjað að lesa við upphaf textans, lesið í 1 mínútu og aftur merkt við hversu langt nemandinn las (2). Endurtekið í þriðja sinn og merkt við (3).

Á degi tvö er svo sami texti lesinn og því les nemandinn hvern texta 6 sinnum.

Nái nemandinn að lesa allt blaðið á minna en mínútu byrjar hann aftur efst og merkir við skv. því.

Mikilvægt er að nota sama verklag í hvert sinn.

Endilega hafið við mig samband ef þið hafið spurningar.

 

Ég minni á diskóballið í síðustu tveimur tímum á morgun, hægt verður að versla í sjoppunni möffins, safa og sleikjó fyrir 300 kr.

Annað kvöld verður svo haldið fyrsta spilakvöld af þremur í matsal skólans og hefst spilamennskan kl. 19:30, veitingar verða til sölu í kaffihléi, hvet ykkur til að fjölmenna og eiga saman skemmtilega spilastund. Við æfðum okkur aðeins í Félagsvistinni í dag.

 

kv,Linda Agnars

 

5. nóvember

Heimavinna þessa vikuna er að lesa heima í 10 mínútur og svo bætist hraðlesturinn von bráðar við. 

Krakkarnir fóru einhverjir heim með bækur í dag sem búið er að stimpla og gott er að kíkja í töskurnar og tæma svo þau séu ekki að bera bækurnar fram og tilbaka. 

Á fimmtudaginn 8. nóv. n.k. er diskóball fyrir 1. - 7. bekk í síðustu tveimur kennslustundunum. Hægt verður að versla möffins, sleikjó og safa á 300 kr. 

Um kvöldið verður svo fyrsta spilakvöld af þremur og verður það haldið í matsal skólans.

 

kv,Linda Agnars

 


 

24. október

    

 

Þessa viku dunar dansinn í KBS og krakkarnir hafa verið mjög duglegir að æfa sporin með Jóni Pétri danskennara. Á föstudag verður svo danssýning fyrir foreldra sem hefst kl. 13:05.

Á föstudaginn er jafnframt bleikur dagur og þá eru allir nemendur hvattir til að mæta í einhverjum bleikum fötum í skólann.

Dagsetning er komin á bekkjarkvöld og verður það haldið 13. des, gott að skella því á dagatalið. Þá bjóða krakkarnir í 3. og 4. bekk foreldrum sínum að koma og skoða ýmislegt skemmtilegt sem þau verða búin að vinna, boðið verður upp á kaffi og kruðerí með því en nánari upplýsingar verða sendar á foreldra þegar nær líður. 

Í næstu viku byrjum við með 6 vikna hraðlestrarnámskeið sem foreldrar 4. bekkinga kannast við þar sem þau tóku þannig síðasta vetur einnig og eru krakkarnir alveg með á hreinu hvernig eigi að standa að skráningum o.þ.h. tengt hraðlestrinum. 

Nú förum við svo einnig að hefja þemavinnu tengda Fullveldishátíðinni 1. desember og munum við vinna ýmis skemmtileg verkefni sem öllum gestum og gangandi stendur til boða að skoða og kynna sér á opnu húsi í KBS þann 1. desember n.k. 

Minni á danssýninguna á föstudaginn,

kv, Linda Agnars

 


 

15. október

Í dag kláruðu nemendur 4. bekkjar að teikna og lita þær myndir sem sendar verða inn í árlega teiknisamkeppni 4. bekkja í samvinnu með Mjólkursamsölunni. Á morgun verður söngstund með öllum nemendum og kennurum fyrir fyrri hressinguna og svo kemur Jóhanna kennaranemi í heimsókn til okkar í skólastofuna og ætlar að fá að fylgjast með krökkunum í tvær kennslustundir fyrir hádegið. Heimavinnuáætlun fyrir vikuna má finna hér að neðan. Ef að nemendi á að vinna einhver verkefni aukalega við það sem þar kemur fram kemur það fram á heimavinnublaði sem finna má í skilaboðaskjóðu viðkomandi nemenda. Hér neðar á síðunni má einnig finna myndir frá List fyrir alla - Búkollu sýningunni frá fimmtudeginum síðasta. Minni í lokin á frjálsíþróttaæfingu á morgun í síðasta tíma, 14:40 - 15:20.

Kv,Linda Agnars

 

Mánudagur 15. 10 - lesa í 10 mín.

Þriðjudagur 16. 10 - lesa í 10 mín.

Miðvikudagur 17. 10 - lesa í 10 mín. og gera 2 bls. í æfingahefti Sprota

Fimmtudagur 18. 10 - lesa í 10 mín.


 

Myndir frá skemmtilegri sýningu og brúðugerð frá List fyrir alla þar sem leikritið um Búkollu var sett í skemmtilegan búning og krakkarnir fengu að útbúa sínar eigin leikbrúður


 

13. október

Sælir foreldrar.

Á fimmtudaginn fengum við heimsókn í boði verkefnisins List fyrir alla og var það skemmtileg brúðuleikhússýning um Búkollu. Að sýningu lokinni var nemendahópnum skipt í tvo hópa og fengu allir að útbúa sína eigin leikbrúðu. Þetta var mjög skemmtileg heimsókn og virtust krakkarnir hafa gaman að bæði sýningunni og brúðugerð. Myndir frá sýningunni og brúðugerðinni má sjá á bekkjarvefnum eftir helgi.

Árangur orðleysulestursins sem ég lagði fyrir á miðvikudag hefur verið skráður inn á Námfús og verður því hægt að skoða árangur þegar við endurtökum orðleysulesturinn. Þessar upplýsingar verða ykkur svo aðgengilegar líkt og Lesferillinn sem þið fenguð í hendur í foreldraviðtölunum. Lestur orðleysa er eitt besta mælitækið til að meta færni nemenda í umskráningu. Börn með veikleika í hljóðkerfisvitund lenda oft í erfiðleikum í byrjun lestrarnáms og hætt er við að þau nái illa tökum á umskráningarferlinu. Þetta er því enn eitt góða mælitækið sem við höfum til að mæla, skrá og meta lestrarfærni nemenda okkar ásamt því að gefa foreldrum góðar upplýsingar um framfarir eða erfiðleika síns barns þegar kemur að lestrinum.

Í ART í gær vorum við að ræða tilfinningar og tóku krakkarnir m.a. myndir af sér þar sem þau sýndu margskonar svipbrigði sem tengja má margskonar tilfinningum. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og flottar myndir sem komu þar fram, þær verða settar á plakat sem ég get svo sýnt ykkur eftir helgi. 

Í næstu viku á þriðjudaginn verður sameiginleg söngstund hjá öllum nemendum sem stjórnað verður af tónlistarkennurunum okkar Zbiegnew og Teresu, þetta er skemmtileg nýjung sem verður vonandi að föstum lið í skólastarfinu hjá okkur. 

Dagana 22. - 26. október verður svo Jón Pétur danskennari hjá okkur og verður foreldrasýning í lok þeirrar viku þar sem nemendur sýna það sem þeir lærðu í fótafiminni.

Heimavinnuáætlun kemur inn á bekkjarvefinn okkar á mánudag.

Bestu kveðjur,Linda Agnars


 

 10. október

Sælir foreldrar.

Krakkarnir fóru með heim í dag skráningarmiða fyrir sundæfingar sem hefjast á miðvikudag í næstu viku. Þeim þarf að skila til mín sem fyrst.

Í dag lagði ég fyrir alla nemendur 3. og 4. bekkjar svokallað Orðaleysuverkefni sem er hluti af Lesfimiferlinum (Lestrarferli). Próf í orðleysulestri er 40 atriða einstaklingspróf sem tekur 1-2 mínútur í fyrirlögn á hvern nemanda (sjálfur próftökutíminn er 1 mínúta). Lestur orðleysa er eitt besta mælitækið til að meta færni nemenda í umskráningu. Börn með veikleika í hljóðkerfisvitund lenda oft í erfiðleikum í byrjun lestrarnáms og hætt er við að þau nái illa tökum á umskráningarferlinu. Flest öllum gekk mjög vel í þessari könnun og er árangur skráður í Skólagáttina svo að foreldrar geta fylgst með muni milla prófa eins og á útprentaða lesferilsblaðinu sem þið fenguð hjá mér í foreldraviðtölunum í gær. 

Að lokum vil ég ítreka við ykkur að kíkja á bókasafnslistana hjá þeim nemendum sem fengu hann útprentaðan frá Björk því að bækurnar hafa ekki verið að skila sér og verið er að bíða eftir nokkrum bókum sem skráðar eru á nemendur 3. og 4. bekkjar.

Endilega hafið samband ef einhverjar spurningar vakna,

Bestu kveðjur, Linda Agnars


 

8. október

Sælir foreldrar.

Minni á foreldraviðtölin á morgun, þriðjudag, og undirbúningsblöðin.

 

kv,Linda Agnars

 


 

3. október

Þrátt fyrir að þessi vinnuvika væri frekar stutt komum við heilmiklu í verk eins og alltaf, enda duglegir námshestar í 3. og 4. bekk. Krakkarnir kláruðu flottu krumma klippimyndirnar sínar og í næstu viku klárum við Krummablöðin sem eru hluti af náttúrufræðivinnubók sem safnað er í fram að jólum. Plánetuverkefnið gengur líka mjög vel, krakkarnir vinna tveir og tveir saman og safna upplýsingum um plánetur og himingeiminn og verður það verkefni og fleiri kynnt ykkur foreldrum á bekkjarkvöldi í lok nóvember. Í ensku eru 3. bekkingar að vinna með tölurnar og litina og 4. bekkingar eru að æfa orðaforðann og er flott orðasafn að myndast uppi á vegg hjá okkur. Krakkarnir voru duglegir að fylla út septemberlesturs-blöðin sín og lásu saman 61 bók og 1.361 blaðsíður. Að sjálfsögðu stefna þau á að bæta það met í október. Bókaormur septembermánaðar fær afrakstursverðlaun eftir helgi. Krakkarnir fóru heim í dag með undirbúningsblöðin fyrir foreldraviðtölin sem eru næsta þriðjudag, endilega látið mig vita ef þið komist ekki þann dag eða ef þið viljið breyta ykkar viðtalstíma. Þau fóru einnig sum heim með blöð frá bókasafninu og um að gera að nota frídagana til að kíkja hvort ekki leynast einhverjar bókasafnsbækur heima og smella þeim þá í skólatöskuna fyrir mánudag. Breytingar hafa verið gerðar á íþróttaæfingum fyrir 1. - 4. bekk og eru þær upplýsingar sendar ykkur í öðrum pósti. Töluvert er farið að kólna í veðri og því gott að minna á að krakkarnir komi klæddir eftir veðri í skólann og með útiföt þar sem þau eru úti í öllum frímínútum og í gæslunni.

Endilega hafið samband ef einhverjar spurningar vakna, annars hittumst við hress og kát næsta þriðjudag í foreldraviðtölum.

 

Kveðja, Linda Agnars

 


 

1. október

Samræmdu prófin hjá 4. bekkingum í síðustu viku gengu vel og var greinilegt að nemendur höfðu metnað fyrir því að gera sitt allra besta, meira er varla hægt að fara fram á. Þessi vika er í styttri kantinum þar sem enginn skóli er á fimmtudag og föstudag vegna skipulagsdaga kennara. Kennarar fara á árlegt haustþing Kennarafélags Suðurlands á Flúðum og sitja þar námskeið og fyrirlestra. Heimanám þessa þrjá daga er að lesa heima í 10 mínútur. Nemendur voru með aukið álag vegna heimavinnu í síðustu viku og fá því aðeins frí þessa vikuna. Nú er búið að lestrarprófa nemendur og sendi ég Lesferilinn heim um leið og hann berst mér. Það vantar september lestrarheftið frá tveimur nemendum, gott að hafa það í töskunni í skólann á morgun.

Í lokin vil ég minna á foreldraviðtölin næsta þriðjudag, 9. október, og ég vonast til að hitta ykkur sem flest þar.

Minni á viðtalstímann minn á fimmtudögum og alltaf er hægt að senda póst á linda@klaustur.is

 

kv,Linda Agnars

 

 


 

25. september

Takk fyrir komuna kæru foreldrar, það var gaman að hitta ykkur í kvöld á námsefniskynningunni :)

Ég vil hvetja ykkur til að senda mér póst ef þið hafið einhverjar spurningar eða hugleiðingar.

Kveðja, Linda Agnars

 


 

24. september

Heimavinnuáætlun vikuna 24. - 28. september:

Mánud. 24. 9 - Lesa í 10 mínútur, vinna eitthvað aðeins í þjálfunarheftunum fyrir samræmdu prófin

Þriðjud. 25. 9 - Lesa í 10 mínútur, vinna eitthvað aðeins í þjálfunarheftunum fyrir samræmdu prófin

Miðvikud. 26. 9 - Lesa í 10 mínútur, vinna eitthvað aðeins í þjálfunarheftunum fyrir samræmdu prófin

Fimmtud. 27. 9 - Lesa í 10 mínútur

(athugið að nemendur 3. bekkjar eru ekki með þessi sömu hefti en taka með heimadæmi á miðvikudag)

Við förum í þjálfunarheftin í skólanum einnig, í dag skoðuðum við nokkur dæmanna saman, sumir voru búnir með nokkur dæmi, aðrir höfðu ekki unnið neitt. Mikilvægt er að nemendur reyni að spreyta sig, þó það sé ekki nema bara á nokkrum einföldustu dæmunum. Við höldum áfram á morgun og þá vinna þau einnig aukablöð sem þjálfa grunnatriðin sem þurfa að vera á hreinu fyrir samræmdu prófin, bæði í íslensku og stærðfræði. Samræmda íslenskuprófið taka þau á fimmtud. og samræmda enskuprófið taka þau á föstud. Þau byrja kl. 10:30 og fá 70 - 85 mínútur til að leysa prófin.

Á fimmtud. förum við eftir prófið á leiksýningu kl. 14:00 og á föstudag eftir prófið ætlum við að hafa dótadag og gera okkur glaðan dag eftir prófadagana. 

Minni á námsefniskynninguna fyrir ykkur foreldra annað kvöld kl. 20:00 - 21:00, sjáumst þá :)

Bestu kveðjur, Linda Agnars

 


 

20. september

Undirbúningur fyrir samræmdu prófin í næstu viku eru í fullum gangi. Nemendur hafa tekið kynningarprófið í íslensku þannig að þeir hafa kynnt sér það umhverfi sem prófin eru tekin í. Þau fara með heim á morgun, föstudag, undirbúningshefti bæði í íslensku og stærðfræði sem gott væri að þið kíktuð yfir með þeim um helgina og gott væri ef þau myndu byrja að vinna í heftunum ef hægt er. Á mánudag til miðvikudags munu þau svo fullvinna þessi hefti bæði í skólanum og heima.

 

Námsefniskynning verður haldin fyrir foreldra þriðjudagskvöldið 25. sept. n.k. kl. 20:00- 21:00. Þá gefst tækifæri fyrir foreldra að skoða námsefnið sem unnið er með, skoða kennsluáætlanir og annað sem tengist námi barna sinna, hitta umsjónarkennara og bera upp spurningar. Kaffi verður á könnunni og vonandi sé ég ykkur sem flest við það tækifæri.

 

Stefnt er á að hefja lestrarprófanir allra nemenda á næstu dögum og munu niðurstöður verða skráðar í Lesferilinn og fáið þið upplýsingar um stöðu ykkar barns að prófunum loknum.

 

Framundan í október:

 

Skipulagsdagar 4. og 5. október, engin kennsla.

 

Foreldraviðtöl 9. október.

 

Brúðusýning fyrir 1. - 7. bekk 11. október.

 

Dansskóli vikuna 22. - 26. október

 

kv, Linda Agnars

 

 

 

 

 


 

13. september

Sælir foreldrar.

Á heimavinnuáætlun í dag er lestur og 2 bls. í æfingahefti Sprota. Sprotaverkefnin má vinna um helgina ef þið viljið það og skila á mánudag. Þeir sem vilja skila á morgun föstudag mega það samt alveg líka :)

Kv, Linda Agnars

 

 


 

Heimanám vikuna 10. – 14. September:

 Mánudagur: Lesa í 10 mín 

Þriðjudagur: Lesa í 10 mín 

Miðvikudagur: Lesa í 10 mín 

Fimmtudagur: Lesa í 10 mín og 2 bls. í æfingahefti Sprota


 

3. september 2018

Heimanám vikuna 3. - 7. september.

Hér fyrir neðan má sjá heimavinnuáætlun vikunnar hjá 3. - 4. bekk. Minni á að ef einhverjir nemendur ætla að fara fyrr eða fá leyfi á föstudag til að taka þátt í smalamennsku þarf að láta mig eða skólaritara vita fyrir föstudag.

Heimanám vikuna 3. - 7. september:

Mánudagur: Lesa í 10 mín 

Þriðjudagur: Lesa í 10 mín 

Miðvikudagur: Lesa í 10 mín

Fimmtudagur: Lesa í 10 mín og 2 bls. í Ítalíuskrift æfingahefti

 

Muna að kvitta í lestrarstílabókina :)

 

 


27. ágúst 2018

Heimanám vikuna 27. - 31. ágúst:

Mánudagur: Lesa í 10 mín 

Þriðjudagur: Lesa í 10 mín 

Miðvikudagur: Lesa í 10 mín og gera 2 bls. í Sprota æfingahefti

Fimmtudagur: Lesa í 10 mín

Muna að kvitta í lestrarstílabókina :)

Myndaniðurstaða fyrir reading cartoon images


 

 

24. ágúst 2018

Í dag fara nemendur með heim skráningarblöð frá Tónlistarskóla Skaftárhrepps. Þeir sem hyggja á tónlistarnám í vetur fylla út skráningarblöðin og koma þeim til mín sem fyrst eftir helgina.

 

Myndaniðurstaða fyrir instruments cartoon


 

 

Kirkjubæjarskóli á Síðu

23. ágúst 2018

 

Sælir foreldrar.

Þá rennur upp enn einn starfsveturinn í Kirkjubæjarskóla á Síðu og vil ég hér með bjóða ykkur og börn ykkar velkomin í skólann og velkomin til starfa. Í vetur verð ég umsjónarkennari barna ykkar í 3. og 4. bekk og kenni þeim íslensku, stærðfræði, náttúrufræði, samfélagsfræði, ensku, upplýsingamennt og ART. Aðrir kennarar og þeirra greinar eru tilteknir aftan á stundatöflu.

Ég vil minna á mikilvægi þess að nemendur vinni heimavinnuna sína og mæti með öll gögn í skólann auk íþróttafatnaðar og sundfatnaðar og minni á að æskilegt er að nemendur mæti með íþróttaskó í íþróttatíma og á íþróttaæfingar.

Heimanám verður með þeim hætti að í stað þess að nota Skólakompu eins og við gerðum í fyrra þá munu nemendur hafa vinnumöppur þar sem þeir hafa sína vikuáætlun og merkt er við það sem lokið er. Ef einhverju er ólokið er það klárað heima. Fyrir utan þessar áætlanir er ætlast til að nemendur lesi alltaf heima að minnsta kosti fimm sinnum í viku. Með lestrarbókunum fylgja stílabækur þar sem lestur er skráður og sá sem hlustar kvittar. Mikilvægt er að mamma og pabbi eða einhver annar eldri hlusti á börnin lesa og kvitti fyrir svo hægt sé að bæta lestrarárangur jafnt og þétt og fylgjast með framgangi lestrarnámsins.

Í íslenskutímum munum við leggja mikla áherslu á lestur, skrift, lesskilning og ritun auk þess sem við vinnum með ljóð og kvæði, þjóðsögur, málfræði og stafsetningu. Einnig tökum við hraðlestrarnámskeið í 8 vikur seinna í haust og PALS þjálfunin verður á sínum stað.

Í stærðfræðinni vinnum við með Sprotabækurnar sem flestir kannast við auk æfingahefta í grunnatriðum stærðfræðinnar; samlagningu, frádrætti, margföldun og deilingu.

Í samfélagsfræði vinnum við með bók sem heitir Komdu og skoðaðu sögu mannkyns og mun ég notast við kennsluleiðbeiningar og kennsluefni sem ég útbjó með bókinni sem hluta af B. Ed. lokaverkefni mínu í kennaranáminu. Bekkjarkvöld verður haldið í lok þess verkefnis til kynningar.

Í náttúrufræði ætlum við að læra um pláneturnar og himingeiminn ásamt því að fara út í náttúruna og læra ýmislegt um hana, gróður, dýr, tré o.fl.

Í upplýsingamennt höldum við áfram að þjálfa fingrafimina ásamt því að læra grunnatriði í notkun Word og fleiri grunnforrita.

Í ART lærum við að vera saman í sátt, taka tillit til annarra, hvernig við eigum að biðja um t.d. aðstoð eða hvernig við getum tekist á við uppákomur í lífinu og margt fleira.

Í ensku vinnum við með grunn-orðaforða og byrjendaskilning með ýmsum verkefnum og leikjum.

Ég hlakka til að eiga með ykkur gott og farsælt samstarf í vetur, ég hvet ykkur til að hafa samband ef eitthvað liggur ykkur á hjarta, ég er með viðtalstíma á fimmtudögum kl. 11:05 – 11:45 og þá er hægt að ná í mig í skólasímann og svo má senda tölvupóst á netfangið linda@klaustur.is. Einnig hvet ég ykkur til að fylgjast með á heimasíðu skólans, kbs.is, en þar undir má finna bekkjarsvæði 3. – 4. bekkjar þar sem ég mun setja inn fréttir, myndir o.fl.

Með bestu kveðju, Linda Agnarsdóttir