Skólareglur Kirkjubæjarskóla

 Skólareglur Kirkjubæjarskóla felast fyrst og fremst í almennum umgengnisreglum. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum starfsfólks í öllu starfi á vegum skólans. Samskipti nemenda og starfsfólks skólans þurfa að einkennast af prúðmennsku, kurteisi og gagnkvæmri virðingu. Skólinn leggur áherslu á að skapa hlýlegt umhverfi og því mikilvægt að nemendur og starfsmenn skólans gangi vel um skólann. Hlýlegt umhverfi er einn þeirra þátta sem hafa jákvæð áhrif á líðan nemenda.

  • Allir mæti stundvíslega.
  • Allir virði vinnufrið og gæti þess að trufla ekki aðra.
  • Allir sinni námi sínu og öðrum störfum af kostgæfni.
  • Allir sýni kurteisi og tillitsemi í samskiptum.
  • Allir hafi ávallt nauðsynleg gögn tiltæk.
  • Allir fari vel með eigur sínar og annarra.
  • Allir fari úr yfirhöfnum, húfum og útiskóm í fatahengi.
  • Allir gæti hófs í gönguhraða innanhúss.
  • Hver nemandi ber ábyrgð á þeim verðmætum sem hann kemur með í skólann.
  • Hver nemandi er ábyrgur fyrir því tjóni sem hann kann að valda á eigum annarra nemenda, starfsfólks eða skólans.

Óheimilt er:

  • Að hafa sælgæti um hönd að öllu jöfnu.
  • Að nota farsíma á skólatíma*  
  • Að hjóla á skólalóðinni á skólatíma.
  • Að vera með hluti í skólanum sem valdið geta truflun, skaða eða skemmdum.  

*Farsímanotkun er ekki leyfð á skólatíma. Nemendur geta afhendt síma sína að morgni og verða þeir geymdir í læstri hirslu til loka skóladags. Verði um misnotkun að ræða eiga nemendur það á hættu að tækin verði tekin í vörslu umsjónarkennara uns forráðamenn koma að sækja þau.

Notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er algjörlega bönnuð í öllu starfi á vegum skólans.

Kennurum er heimilt að setja sérstakar reglur sem gilda í kennslustofum og á vinnusvæðum nemenda og í ferðum á vegum skólans.

Varðandi brot á skólareglum skal fara skal fara eftir ákvæðum 11. og 12. gr.  V. kafla, reglugerðar nr. 1041/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum: 

V. KAFLI

Brot á skólareglum.

11. gr.

Misbrestur á hegðun nemenda.

Brjóti nemandi af sér skal kennari ræða við nemanda um hegðun hans til þess að hann geri sér grein fyrir eðli brotsins og afleiðingum þess og átti sig á ábyrgð sinni. Kennari skal hafa samráð við foreldra í samræmi við eðli máls og leita aðstoðar skólastjórnenda og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda. Leggja skal áherslu á að leitað sé eftir samkomulagi og sáttaleiðum.

Veita skal nemendum stuðning sýni þeir af sér óæskilega hegðun og/eða slaka ástundun og leitast við að koma skólagöngu þeirra í viðunandi horf í samstarfi við foreldra. Taka skal tillit til aðstæðna og þarfa nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.

Nýta skal til fullnustu allar þær leiðir sem skólinn hefur tiltækar til að leita lausna og ráða bót á hegðun nemenda, að teknu tilliti til þroska þeirra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, eða aðstæðna að öðru leyti. Hegði nemandi sér í ósamræmi við skólareglur utan skólatíma telst það almennt ekki brot á skólareglum, nema þegar t.d. er um að ræða einelti eða annað ofbeldi sem á sér stað á leið nemanda til og frá skóla. Fer þá um viðbrögð í samræmi við skólareglur.

Foreldrum skal ætíð svo fljótt sem auðið er gerð grein fyrir brotum barna sinna á skólareglum og viðbrögðum skólans og gefa skal foreldrum kost á að tjá sig ef börn þeirra brjóta skólareglur.

12. gr.

Ítrekuð brot nemenda á skólareglum.

Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber umsjónarkennara hans að leita orsaka og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans og eftir atvikum með samningum. Sérstaklega skal skoða þroska nemanda, náms- og kennsluhætti, skólabrag, samsetningu námshópa, aðstæður í nemenda- og félaga­hópnum, samskipti kennara og nemenda og samstarf heimila og skóla.

Verði samt ekki breyting á til batnaðar skulu kennarar leita aðstoðar skólastjórnenda og sérfróðra ráðgjafa skólans á vegum sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, sem skulu leita leiða til úrbóta, að teknu tilliti til hlutverks nemendaverndarráðs, skv. reglugerð nr. 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum og hlutverks barnaverndaryfirvalda.

Gagnvart nemanda sem virðir ekki skólareglur, þrátt fyrir undangengnar aðvaranir og áminningar, má grípa til þeirra viðbragða að taka nemanda úr kennslu og láta hann fást við önnur viðfangsefni það sem eftir lifir skóladags. Einnig er heimilt að vísa nemanda tímabundið úr kennslustundum í ákveðinni námsgrein. Jafnframt er heimilt að meina nemanda þátttöku í félags- og tómstundastarfi á vegum skólans vegna agabrota í félags- og tómstundastarfi. Tryggja skal að nemandi sé í umsjón starfsfólks á vegum skólans á skólatíma eða í öðru kennsluúrræði innan skólans. Einnig er hægt að kalla eftir því að foreldri sæki viðkomandi nemanda í skólann.

Ef nemandi virðir enn ekki skólareglur og ítrekuð brot hans á skólareglum eru alvarleg má vísa nemanda um stundarsakir úr skóla á meðan reynt er að finna lausn á máli hans, að hámarki eina kennsluviku. Ef allt um þrýtur og brot nemanda eru mjög alvarleg, s.s. ef hann veldur öðrum skaða eða eignatjóni, er heimilt að víkja honum ótímabundið úr skóla. Það skal þó ekki gert fyrr en allar aðrar leiðir hafa verið reyndar.