Námsmat

 

Í aðalnámskrá grunnskóla stendur m.a. um námsmat:

 “Mat á hæfni og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi, órjúfanlegur frá námi og kennslu. Megintilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Með námsmati er fylgst með því hvernig nemendum tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðlað að námshvatningu, nemendur örvaðir til framfara og metið hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda.

Námsmat á einnig að veita nemendum og foreldrum þeirra, kennurum, viðtökuskólum og skólayfirvöldum upplýsingar um námsgengi nemenda, hæfni þeirra, vinnubrögð og framfarir, sem m.a. má hafa að leiðarljósi við frekari skipulagningu náms.”

Mikilvægt er að meta bæði verklega og bóklega þætti og prófa ýmist skriflega, verklega eða munnlega eftir því sem við á. Leggja þarf áherslu á fjölbreyttar aðferðir við námsmat og að þær hæfi þeim viðfangsefnum sem meta á.  Sem dæmi um matsaðferðir má m.a. nefna: próf, kannanir, ýmiss konar verkefni, sýnismöppur og gátlista. Námsmat skal miða við þau markmið er fram koma í námsvísi skólans og kynna skal vel fyrir nemendum og foreldrum/forráðmönnum í upphafi skólaárs. Námsmat er hluti af skólastarfinu og fer fram allt skólaárið

Ekki eru formlegir námsmatsdagar í skólanum.   Námsmat  í skólanum er að mestu símati sem fer fram yfir allt skólaárið og þannig fylgst með framförum þeirra í öllu greinum.  Öll próf fara fram í tímum viðkomandi námsgreina og geta verið mest 80 mínútur.

Vitnisburður er afhentur í foreldraviðtölum við lok haustannar þar sem foreldrar og nemendur koma til fundar við umsjónarkennara. Í viðtölunum er farið yfir stöðu nemenda á liðinni önn. Vitnisburður á vorönn er afhentur við skólaslit. Áhersla er lögð á að umsagnir séu hluti af öllu námsmati. Umsagnirnar skulu vera uppbyggjandi, framfaramiðaðar og sýna stöðu nemenda. Gefið er í bókstöfum og/eða gefnar umsagnir. Allir nemendur taka a.m.k. tvö hraðlestrarpróf á ári, ekki er einkunn gefin heldur er atkvæðafjöldinn uppgefinn og framför.