Ágrip af sögu Kirkjubæjarskóla

Þann 4.  október árið 1971 var Kirkjubæjarskóli á Síðu settur í fyrsta sinn sem skóli allra hreppanna milli Mýrdalssands og Skeiðarársands.   Það gerði nýráðinn skólastjóri Jón Hjartarson en formleg vígsluhátíð skólans var haldin 30.  október og telst sá dagur því afmælisdagur skólans.   Þar með nutu loks öll börn þessara sveita lögboðinnar skólagöngu samkvæmt fræðslulögunum frá 1946.

Jes Einar Þorsteinsson teiknaði húsið en byggingarmeistarar voru Stefán Kristjánsson og síðar Einar Bárðarson.  Ríkið lagði til 75% kostnaðarins og liðkaði það fyrir fjárveitingum til byggingarinnar að húsið yrði nýtt sem hótel á sumrin.  Byggingarframkvæmdir hófust veturinn 1967.  Lögð var áhersla á að ljúka fyrst byggingu heimavistar og íbúða fyrir starfsfólk en kennt var í bráðabirgðahúsnæði í kjallara nýbyggingarinnar og mötuneyti var í gamla gistihúsinu.  Fyrri kennslustofuálman var tekin í notkun árið 1974 og byggingu sundlaugar lauk 1975.  Fleiri kennslustofur bættust svo við árið 1985 og bókasafnið í desember 1987.  Fyrstu heimavistarnemendurnir voru úr Meðallandi en síðan einnig úr Skaftártungu og Álftaveri.  Heimavist var starfrækt við skólann til ársins 1992.  Eftir það var hluta heimavistar breytt í kennslustofur.  Tekið var í notkun nýtt tölvuver haustið 2003, íþróttahús var tekið í notkun 2004 og sundlaug 2007.

Jón Hjartarson lét af störfum árið 1990 og tók Hanna Hjartardóttir þá við starfi skólastjóra en hún hafði verið kennari við skólann frá upphafi.  Guðmundur Þorsteinsson aðstoðarskólastjóri leysti hana af í námsleyfi veturinn 1998-1999.  Hanna lét af störfum árið 2000 og þá tók Valgerður Guðjónsdóttir við starfi skólastjóra og gengdi því til ársins 2003.  Stella Kristjánsdóttir var skólastjóri árin 2003 – 2007.   Ragnar Þór Pétursson var skólastjóri 2007 – 2008.   Kjartan Kjartansson var skólastjóri  árinu 2008 - 2018. Katrín Gunnarsdóttir er nú starfandi skólastjóri en hún tók við starfinu á haustönn 2018.

Árið 1983, á 200 ára afmæli Móðuharðindanna og Eldmessunnar, var efnt til mikillar vinnuviku í skólanum sem lauk með opnun sýningar sem var opin fyrir almenning allt sumarið.  Skákskóli var starfræktur í Kirkjubæjarskóla 1978-1982 og var blómlegt skáklíf meðal nemenda skólans á þessum árum.  Kennsla í fiskirækt sem hluti af líffræðikennslu í 9.  bekk hófst 1983 og þróaðist hún út í kennslu í fiskeldi á framhaldsskólastigi sem stóð til ársins 1995.   Framfarafélag Kirkjubæjarskóla, síðar foreldrafélag var stofnað 1991.

Árlegir ,,vísindaleiðangrar” nemenda elstu bekkjanna til Reykjvíkur hófust 1972 og eru þeir enn við lýði.  Tilgangur þessara ferða er að kynna nemendum skóla og fyrirtæki, auk þess að fara í leikhús og á söfn.  Aðrir fastir liðir eru Vestmannaeyjaferð 7.  og 8.  bekkjar á vorin annað hvert ár og árleg haustferð allra í skólanum um heimabyggð með þátttöku foreldra.  Nemendur yngri bekkjanna hafa farið til skiptis í vorferðir í Skaftafell, að Skógum og í boðsferð í Mjólkurbú Flóamanna á Selfossi.  Auk þessa er vert að geta Danmerkurheimsókna eldri nemenda til vinabæjarskólans Sabro Korsvejskole á Jótlandi sem hófust 1987 og hafa líka verið endurgoldnar.

Meðal hefða í félagslífi má nefna diskótek, spilakvöld, laufabrauðskvöld, grímuball og árshátíð.  FélagsmiðstöðinKlaustrið var stofnuð haustið 2002.  Starfsemin fer að mestu leyti fram í húsnæði skólans og er ætluð nemendum 8.-10.  bekkjar.

Nokkur þróunarverkefni hafa verið unnin við skólann.  Þar ber fyrst að nefna Listahátíð barna ,,Kallar hann mig, kallar hann þig” í tengslum við M-hátíð á Suðurlandi árið 1991.  Áhersla var lögð á list- og verk- greinar með þátttöku allra nemenda.  Afrakstur vinnunnar var sýndur á árshátíð skólans auk þess sem haldin var tveggja daga listahátíð með myndlistarsýningum, sviðsverkum, tónlist, dansi, blaðaútgáfu, útvarps- þætti, ljósmyndasýningu, matvælakynningu og fleiru.  ,,Líf að loknum grunnskóla” var lífsleikni- og starfsfræðsluverkefni fyrir 10.  bekk veturinn 1996 til 1997.  Þar var áhersla lögð á sjálfsstyrkingu, námstækni, heilbrigðiskerfið, heimilishald og fjármál.  Markmiðið var að veita nemendum hagnýta fræðslu sem gæti nýst þeim er þau færu í burtu í framhaldsskóla og yrðu að standa á eigin fótum.  ,, Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja - lífsleikni í söguog samtíð var verkefni um heimabyggð unnið út frá haustferð um Landbrot og Meðalland.  Gefið var út vandað hefti með ýmsum fróðleik um náttúru, sögu og mannlíf í þessum sveitum.  Heftið hafa nemendur, aðrir íbúar hreppsins og ferðamenn nýtt sér til fróðleiks og skemmtunar.  Hugmyndin var að verkefnið gæti nýst öðrum skólum til hliðsjónar.  Einnig má nefna ýmis samvinnuverkefni við stofnanir og félagasamtök á svæðinu svo sem vinnu nemenda við sandgræðslu og samkeppni um merki fyrir Landgræðslufélag Skaftárhrepps, verkefni um kirkjulist í tilefni af kristnitökuafmælinu árið 1000, heimsóknir nemenda á hjúkrunarheimilið Klausturhóla með tónlistarflutning og gróðursetningu í samvinnu við skógræktarfélagið Mörk.

Nemendur Kirkjubæjarskóla koma úr byggðunum frá Lómagnúpi í austri að Mýrdalssandi í vestri og er skólinn bæði heimangöngu- og heimanakstursskóli.  Mikil og vaxandi samkennsla er í skólanum, tveimur eða þremur árgöngum kennt saman og reynt eftir megni að nýta kosti þessara kennsluhátta.

Árið 1973 voru 114 nemendur í skólanum, 1981 voru nemendur skólans 115, árið 1991 voru þeir 93, 2001 voru 84 nemendur í skólanum en nú, árið 2004 voru nemendur Kirkjubæjarskóla 69. 2008 voru 36 nemendur við Kirkjubæjarskóla. Haustið 2012 hófu 45 nemendur nám við Kirkjubæjarskóla.

   

Um skólabyggingar í sveitunum milli sanda.

1909  Reist skólahús á Kálfafelli og í Múlakoti.

1913  Reist skólahús í Álftaveri.

1914  Reist skólahús í Þykkvabæ.

1917  Reist skólahús á Kirkjubæjarklaustri.

1967  Hafin bygging Kirkjubæjarskóla.

1970  Hluti Kirkjubæjarskóla tekinn í notkun.

1971  Kirkjubæjarskóli vígður 30. október.  Smíði heimavistar- og mötuneytisálmu lokið.

1974  Smíði kennsluálmu lokið.

1975  Sundlaugin tekin í notkun.

1985  Nýjar kennslustofur, kennarastofa og skrifstofaskólastjóra teknar í notkun.

1988  Héraðsbókasafnið vígt 6. febrúar.

2004  Íþróttahúsið tekið í notkun.

2004  Íþróttahúsið vígt 9. október.

2007  Sundlaug tekin í notkun.

2008  Íþróttamiðstöð vígð 18. maí.

2017    Ný heimilisfræðistofa vígð á neðri heimavistargangi.

 

Skriflegar heimildir af bókasafni Kirkjubæjarskóla:

Menntasetur í tuttugu ár, Kirkjubæjarskóla á Síðu 9.  nóv.  1971.

Líf að loknum grunnskóla.  Þróunarverkefni – lokaskýrslaKirkjubæjarskóla 1997 – 1998 Haustferð um Landbrot og Meðalland árið 2000.  Handbók um helstu sérkenni og sögu þessara sveita.

Munnlegar heimildir:

Guðmundur Óli Sigurgeirsson

Hanna Hjartardóttir