Breyttar reglur um sóttkví og smitgát - uppfærðar upplýsingar !!

Í gær tilkynntu stjórnvöld breytingar á reglum um sóttkví og smitgát. Samkvæmt þeim á sóttkví nú aðeins við um einstaklinga sem útsettir eru fyrir smitum innan veggja heimilisins.  

Þeir sem eru útsettir fyrir smiti utan heimilis þurfa nú ekki að fara sóttkví heldur smitgát, þar sem fólki ber að fara varlega, en börn á grunnskólaaldri eru undanþegin reglum ef smit er utan heimilis.

Börn á leik- og grunnskólaaldri, fædd 2006 og síðar, sem verða útsett fyrir smiti utan heimilis, t.d. í skólastarfi eða íþrótta- eða frístundastarfi, þurfa hvorki að fara í sóttkví né smitgát. Dvelji þau hins vegar með einstaklingi í einangrun á heimili sínu þurfa þau að fara í sóttkví. Áfram gilda reglur um sóttkví fyrir þá sem verða útsettir fyrir smiti vegna einstaklings á heimili. Smitaðir einstaklingar skulu áfram dvelja í einangrun.

Fullorðnir sem verða útsettir fyrir smiti utan heimilis, t.d. í skólastarfi, fara í smitgát. Í því felst að viðkomandi ber grímu í margmenni og þegar ekki er hægt að halda 2 metra fjarlægð, hvort heldur er úti eða inni, og forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga. Smitgát varir í 5 daga og ekki þarf lengur sýnatöku til þess að losna úr smitgát.

Í gegnum faraldurinn hefur verklag við smitrakningu verið þannig að þegar smit hefur komið upp í skólastarfi þá hafa foreldrar/forráðamenn verið upplýstir um slíkt. Með breytingunni verður ekki lengur þörf á smitrakningu innan skóla og tilkynna foreldrar/forráðamenn einungis um veikindi barna.

 

Á heimasíðu menntamálaráðuneytis eru nýjustu upplýsingar um skólastarf birtar, sjá hér, auk þess sem þar má finna svör við algengum spurningum.