Öskudagur 2021

Öskudagur - furðuverur á ferð
Öskudagur - furðuverur á ferð

Út af ,,dotlu“ var skipulag öskudags nokkuð frábrugðið frá fyrri árum en það má með sanni segja að dagurinn hafi heppnast frábærlega.

Nánast allir nemendur og starfsmenn klæddust fjölbreyttum og litskrúðugum búningum í tilefni dagsins.  Það var ljóst snemma dags að tilhlökkun og spenna var í loftinu enda lá fyrir að helsta verkefni dagsins beið handan hornsins, að maska eins og þeir segja fyrir vestan 

Upp úr hádegi flykkust nemendur  út í vorveðrið, glaðhlakkaleg á svip og stuttu seinna mátti heyra sönginn óma í fjarska.  Uppskeran  var í samræmi við gleðina og gæði söngsins og snéru nemendur aftur upp í skóla með poka fulla af sælgæti. 

Þar var kötturinn sleginn úr tunnunni og haldið út í íþróttahús þar sem unglingarnir stjórnuðu leikjum og marseringu.  Var frábært að sjá hve unglingarnir sýndu yngri nemendum mikla umhyggju og natni svo bros var að sjá á hverju andliti.

 

Eftirfarandi fyrirtæki og stofnanir buðu nemendum að sækja sig heim og þiggja sælgæti:

  • Hótel Klaustur, Skaftárskáli, Random, Unicars, heilsugæslan, Skaftárhreppur, Þekkingarsetur og Skaftárstofa. 
  • Svanur lögga og Bjarki slökkviliðsstjóri tóku á móti nemendum á plani við Skaftárstofu í sínum búningum og færðu þeim gotterí í poka.
  • Einstaklingar sem buðu nemendum heim að dyrum voru Sólrún Ólafsdóttir og Sólveig Ólafsdóttir og Joanna ( fyrrum starfsmaður Kjarvals ) og Klausturbleikja sem ekki gátu tekið á móti nemendum  færðu nemendum sælgæti sem sumt var sett var í tunnuna góðu.

Hjartans þakkir fyrir öll sem eitt – þetta var dásamlegur dagur !