Þessi fallegi dagur !

Afmælishátíð Kirkjubæjarskóla hófst kl. 11 í morgun með opnun afmælissýningar nemenda þar sem gestir fengu m.a. að ferðast um 50 ára sögu skólans undir leiðsögn nemenda.   

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson heiðraði okkur með nærveru sinni, nemendum og starfsfólki  til mikillar ánægju.  Hann gaf sér góðan tíma, settist til borðs með nemendnum, snæddi með þeim hádegisverð og skoðaði síðan sýninguna undir  leiðsögn nemenda.  Óhætt er að segja að forseti  hafi unnið  hug okkar allra  og hjörtu með alþýðlegu framkomu sinni og einlægni í samtölum við nemendur og gesti  alla.

Að sýningu lokinni var haldið að félagsheimilinu Krikjuhvoli, hvar Kirkjubæjarskóli og Skaftárhreppur buðu til samsætis í tilefni af afmæli skólans.  

Skólanum bárust góðar gjafir m.a. bókagjöf frá Forseta Íslands, peningagjöf frá Kvenfélagi Kirkjubæjarhrepps og Kvenfélaginu Hvöt sem og  batikmynd af Systrastapa gerða af kirkjulistakonunni Sigrúnu Jónsdóttur frá Vík, sem Þorsteinn Helgason skólastjóri Kirkjubæjarskóla frá 1969 til ársins 1971 færði skólanum til eignar. 

F.h. nemenda og starfsfólks Kirkjubæjarskóla á Síðu flyt ég ykkur öllum  kærar þakkir fyrir komuna, góðar gjafir  og ekki síst fyrir ánægjulega samveru á  þessum fallega degi.  

Kærleikur - Bjartsýni - Samvinna

 

Katrín Gunnarsdóttir

skólastjóri KBS